<$BlogRSDURL$>

fimmtudagur, mars 24, 2005

Þetta liggur í hundsins eðli! Ég hef verið að passa lítinn Civava hund að nafni Coco. Hún er afar skemmtileg tík, hélt t.d. fyrir mér vöku alla síðustu nótt með því að vera hoppandi upp í rúm til mín ásamt kettlingnum Puff (cocopuff!). Ef ég lokaði hurðinni þá kröfsuðu félagarnir í hurðina þangað til ég opnaði fyrir þeim. Ég er með 0fnæmi fyrir köttum. Þetta er erfitt þar sem ég þarf allan mögulegan svefn sem hugsast getur, ég er í prófalestri að Laufásvegi 57, ef þið eruð í nágrenninu, hringið í mig, kíkið í heimsókn, ég hef gott að því að taka smá kaffipásu.

Góð mynd, veit ekki af hverju ég hef ekki séð hana fyrr! Ég hef komið á einn tökustaðinn, í New York, Williamsburg!

En er kona Bobbys orðin tuttugu og fjögurra ára? Ég ætla að vona það, annars fær hún ekki landvistarleyfi. Bein útsending frá komu Fishers í hádeginu, ég hef heyrt að hann hafi látið af öllu gyðingahatri, enda eru næstum engir gyðingar á þessu skeri. Í tilefni af þessu voru minningartónleikar frá Auswitz sýndir beint eftir komu Bobby til Íslands á ríkissjónvarpinu. En fyrsta grundvallarskilyrðið fyrir að fá íslenskan ríkisborgararétt er að hafa hreint sakarvottorð og vera ekki með ákæru, ódæmdur fyrir glæp gagnvart/í öðru ríki.
Ég vona að Bobby flytji í hverfið mitt, það vantar frægt og snjallt fólk í Hlíðarnar. Ef hann flyst í Hlíðarnar þá ætla ég að stofna skákfélag til heiðurs honum. Hvað ætli hann búi lengi á Íslandi áður en hann hverfur aftur, ætli hann verði færður í Guantanamo, Kúbu, ef Bandaríkjamenn ná að finna hann í fjöru?

|

mánudagur, mars 21, 2005

Ég fékk fótbolta í andlitið í gær. Ég fékk nokkur sár í kringum augað og á augnlokið. Ég er með mjög stórt glóðarauga.

Á leiðinni heim sá ég mjög mikið af fínklæddu fólki undir stýri, amman frammí með permanett og yngra fólkið aftur í, haldandi á einhverri rándýrri gjöfinni sem það keypti um morguninn. Ég fór sjálfur í fermingarveislu beint eftir slysið, nokkuð vankaður og fannst allir vera gónandi á augað á mér. Það voru allir að horfa á augað á mér. Ég fór inn á klósettið og sá að sletta af rakakremi var á milli augnabrúnanna. Ég nuddaði slettunni inn í húðina.

Ég er kominn með fínustu vinnu á Landspítalanum. Heill mér.

Ég er ekki enn búinn að skila Skattaframtalinu af því ég hef ekki fundið yfirlitin frá bönkunum og Kaupþingi. Þetta er lýjandi vesen.

Ég er farinn að hlakka til sumarsins þar sem ég hef ekki verið hér á landi sumarið í heild sinni síðastliðin fjögur ár. Snoop Dogg er á Hróaskeldu þetta árið en ég kemst því miður ekki. Meginland Evrópu verður því miður að bíða komu minnar í nokkur ár, fyrir sumarið 2006 er S-Ameríkuferð í bígerð.

Þetta er afar sjálfsmiðuð skrif þar sem ég er búinn að skrifa ég eða beygingu á orðinu átján (18) sinnum í þessum stutta texta. Eins og gefur að skilja er ég afar "egocentrískur" persónuleiki. Ég hugsa náttúrulega allt út frá mér og mínum þörfum. Mér langar afar mikið í fallega, nýja skyrtu með bróderuðum saumi. Mér langar að fá Freyju páskaegg um páskana. Foreldrar mínir hlógu upp í opið geðið á mér þegar ég sagði þeim þetta við matarborðið, sögðu að ég væri orðinn full gamall fyrir svona alhæfingar.

,,Maður sefur þegar maður er orðinn gamall" sagði kona sem eitt sinn bjó í kjallara Grænuhlíðar sjö. Hún hafði orð að sönnu.


|

fimmtudagur, mars 17, 2005

Þegar ég leit út um gluggann rétt fyrir átta í morgun, sá ég hvítan skítinn safnast fyrir í sköflum við grindverk og nakin tré. Ég slökkti á símanum og fór aftur að sofa.
Kuldinn fer ekki vel í mann, kominn með kalbletti á handarbökin, varaþurrk og fyrsti hóstinn í heilt ár, á Sinfóníutónleikum, í miðjum einleikskafla, Dauðadans, Franz Liszt, hálsinn þurr.........., besti hósti og ræsking sem hægt er að hugsa sér, eins og að anda eftir að hafa verið í köfunarkeppni með vinum þínum því þið höfðuð ekkert betra að gera á sumrin.
Í gærnótt dreymdi mig einn sérkennilegasta draum sem mig hefur dreymt. Ég lenti í lestarslysi, rútuslysi, ákeyrslu við eins bíl og ég var að keyra og hestakerrunni minni var stolið í svona spagettí-vestra-draum. Ég er loksins kominn yfir bílhræðsluna sem ég hef verið að berjast við upp á síðkastið, ég get núna keyrt með móður minni í Bónus til að halda á pokunum fyrir hana.
Belgíska Kongó! Magnað leikrit þar sem Eggert Þorleifsson (http://www.actors-union.is/felagar/EggThor.htm) fer á kostum sem hin klassíska, bitra amma sem komin er á elliheimilið þar sem karlpeningurinn deyr áður en hann kemst í síðdegiskaffi.
America´s Next Top Model! Hvað á það að þýða að blörra allar brjóstaskorur og vel sjáanlegan rassvöðva í þröngum gammosíum, vilja framleiðendur missa allt áhorf?

|

miðvikudagur, mars 16, 2005

Hvað er að gerast? Ég er kominn með far á vinstri kinnina eftir kinnhestinn sem ég fékk um daginn fyrir alla letina sem ég hef verið í. Stórt rautt far til að minna mig á að það eigi ekki að sofa til tólf þegar maður þarf að mæta í fyrirlestra kl. átta og um þrjár vikur eru í 10 ein. lokapróf.
Ég gekk eins og fyrri daginn í skólann. Var að hugsa um hvort ég ætti að fara að skemmta mér næstu helgi því síðasta helgi var svo skemmtileg, Hot Chip tónleikar fá lokaeinkunnina 8,0. Þeir byrjuðu full seint og tóku aðeins eitt aukalag. En þá mætir mér afar sjúskaður maður á göngunni, vel lyktandi af kardimommudropum (ætli Thorbjorn Egner hafi verið bytta?) og horfir í augun á mér, stoppar og bíður eftir að ég nálgist. Svo segir hann við mig: ,,hvert ert ert þú að fara væni?" Ég horfi á hann og svara ekki. Hvert er ég að fara? Var hann að meina þetta í heimspekilegum skilningi? Eða bara svona í rúmfræðilegum skilningi? Ég gekk áfram, með iPodinn á shuffle og vonaði að maðurinn sem leit út fyrir að vera fullur í tugi metra fjarlægð, myndi ekki eftir þessu vandræðalega atviki dæginn eftir sökum drykkju. Það kom upp gott popplag frá Japan á iPodinum um leið gekk ég fram hjá tveimur Japönum sem voru að taka myndir af Hringbrautinni.

|

laugardagur, mars 12, 2005

Spurningar fyrir hugsandi fólk, það sést hverjir lesa Medium Rare?


Þú heldur margt um mig ha!

|

fimmtudagur, mars 10, 2005

Flókið framhjáhald
fordæmir engan,
ef það kemst ekki upp

Hvað er flókið framhjáhald spyrja margir. Hvað er framhjáhald spyrja margir.

|
Ég gekk heim úr skólanum í kvöld. Ég ætlaði ekki að ganga heim en þetta var eini möguleikinn í stöðunni ef ég vildi komast heim. Ég setti franska trefilinn á mig eftir góðan fund með triple jay sem er einskonar lærimeistari læknanema í óendalegum djúpum fræðum lífefnafræðisveraldarinnar. Annars vinnur Jón Jóhannes Jónsson á Landspítalanum. Ég er einnig búinn að sækja um vinnu á lansanum, er vongóður um starfið því viðbrögð voru góð. Því má segja að ég sé næstum orðinn samstarfsmaður 3xJ og móður minnar. Alla vega var ég að labba heim. Það hefur aldrei verið jafn gott veður í upphafi mars. Í morgun var ég alveg að deyja úr kulda og grámyglu þegar ég labbaði á lansann í morgunn (þetta gorgerska veður sem heldur að það sé yfir allt hafið). Sólin var að setjast og gluggarnir í blokkunum gegnt mér voru logandi í geislunum, allt var bleikt í kringum mig. Þá sá ég reyk við sjóndeildarhringinn. Það var eitthvað að brenna í Leitunum, gamla hverfinu mínu. Reykurinn sem liðaðist upp í loftið myndaði hauskúpu. Þá áttaði ég mig á því: Margt sem ég kaupi hækkar í verði, verður að safngripum, meðan líffærin í mér lækka í verði, verða verðminni. Þetta er ein besta skýring á neyslumenningu Íslendinga, þeim meðfædda eiginleika manneskjunnar að sanka óþarfa, dauðlegum hlutum að sér sem geta orðið verðmeiri en líf undir vissum kringumstæðum
Líkaminn sem ég skarta er ekki lengur ónæmur fyrir hnjaski. Ég tek meðvitaðar ákvarðanir vegna afleiðinga af því að drekka of mikið áfengi (lifrin, maginn, hausinn), borða óhollan mat (magi, orka) og hreyfa mig of lítið eða af mikið (andlegt og líkamlegt orkujafnvægi, Zen).

|
Nú liggur það á borði sem í orði. Bónus mun líklega kaupa krónuna á milljón krónur og þarf því ekki að gefa milljón lítra af mjólk til húsmæðra með bauga undir augunum eftir að hafa lokast inni í nammideildinni í marga klukkutíma vegna örtraðar. Gamall maður dó næstum því í kælinum þegar hann ætlaði að næla sér í ókeypis mjólk, röðin var svo löng, svona kommúnista röð eins og hún gerist best á köldum vetrardegi í miðri Leningrad! Miðaldra kona bakbraut sig þegar hún ætlaði að fá tvo skammta af ókeypis mjólk, hún hafði ekki tekið nóg af D-vítamíni gegnum ævina. ,,Þetta var eins og að lyfta fullsterkum, engin amlóðatök get ég sagt þér" sagði konan í viðtali við DV.
Fólkið í mjólkursamsölunni gat í fyrsta skipti (síðan uppgötvað var að mjólkin úr spenunum væri drykkjarhæf og kálfar svona bragðgóðir) ekki tekið með sér heim, ókeypis mjólk í kaffið. Mjólkin seldist í fyrsta skipti upp. Bóndi úr Dölunum sem vinnur svart í mjólkuriðnaðinum kvaðst vera sáttur þar sem hann færi ekki eftir mjólkurkvótanum og gæti því selt meira.

Það stóðu tvær konur á horni Stigahlíðar og Bogahlíðar í dag þegar ég var að keyra heim eftir að hafa farið á kaffihús með "stelpunum" og talað um komandi vinnu- og hösltíð, þ.e. sumarið ásamt því að hafa keypt miða á Hot Chip tónleika næsta kvöld. Konurnar hreyfðu hendurnar í gríð og erg, túlkandi mikið magn einhvers. Þær voru báðar á hjóli og með poka á sitthvorum enda stýrisins. Í pokunum voru flöskur. Þá sá ég eldri mann vera að grúska í ruslatunnu skammt frá. ,,Þetta fólk styður líklega aukna gosneyslu" hugsaði ég með mér.

|
Þetta internet, stelur frá manni uppfærslum þegar það nær ekki sambandi við þráðlausa boxið. Hvað verður um allan textan sem fer forgörðum á netinu? Ég ætla ekki að kjósa um rektor Háskóla Íslands þar sem atkvæði mitt telur lítið. Vertu ánægður að það telji eitthvað sagði maður við mig. Ég er ekki ánægður og mótmæli. Allir kadídatar í rektorskjöri segjast vera móti skólagjöldum. En bíðið bara, eftir tvö ár verður jafn dýrt að fara í heimsreisu og í Háskólann til eins árs.

|

miðvikudagur, mars 09, 2005

Í dag er leiðinda veður, fólk labbandi í Kringluna til að komast í Bónus. Þar er mjólkurlítrinn á eina krónu, í Krónunni kostar hún meira en þar færðu í bónus einn snúð með hverju fjölskyldubrauði sem þú kaupir. Fólk hneppir upp í háls og setur hettuna á. Það er ekki til siðs að ganga um með regnhlífar á Íslandi. Þær skyggja fyrir þá litlu birtu sem dagurinn hefur upp á að bjóða. Það vill enginn auka á skuggaþyngsl íslenskrar moldu.

Að sjálfsögðu hefur náttúran afar gott af þessari vætu, en sumir virðast vera að ganga í öfgar með þessa hugmynd austur í landi! Vilja hafa víðlendin jafn blaut og Íslendinga á góðri sumanóttu, aðfaranótt laugardags, niðri í bæ.

|

þriðjudagur, mars 08, 2005

Í dag er V-dagurinn sem er haldinn árlega til áminningar um ofbeldi gegn konum. Ég hugsa alltaf með hryllingi til þeirrar staðreyndar að algengasta dánarorsök kvenna í Rússlandi sé af völdum ofbeldis sem á sér stað innan veggja heimilisins.
Í gærkvöldi fór ég í Útvarp Samfés fyrir hönd Forvarnarstarfs læknanema á Rás Tvö. Þótt þetta væri í fyrsta skipti sem ég og Þórey bekkjarsystir mín færum í beina útsendingu var ákveðið að ræða alvarlegt málefni sem hefur verið mikið í fjölmiðlum upp á síðkastið: Að ungar stúlkur séu að borga fyrir inngöngu í partí, áfengi eða jafnvel fíkniefni með kynlífsgreiðum í formi munnmaka, jafnvel endaþarmsmaka. Ég hef orðið nokkuð var við í forvarnarheimsóknum mínum í menntaskóla landsins að ungt fólk lítur ekki á munnmök og jafnvel endaþarmsmök sem kynlíf, aðeins þegar getnaður er mögulegur má líta á þetta sem kynlíf. Þetta er að sjálfsögðu mikil firra þar sem allir kynsjúkdómar geta smitast með báðum aðferðum, líkamsvefur skaddast og að sjálfsögðu er þetta þverfagleg kynferðisleg athöfn þar sem samskipti milli kynjanna eiga sér stað þar sem kynfæri og kynferðislegar langanir eru hluti af dæminu.
Við töluðum um þennan punkt í útvarpinu fram og til baka. Einnig vorum við mikið að spá í sjálfsvirðingu stúlknanna og lítilsvirðingunni sem mennirnir (oftast mun eldri einstaklingar en stelpurnar) sýna stúlkunum. En í einu lagahléinu hringdi til okkar manneskja sem vinnur á Neyðarmóttöku nauðgana á Landspítalanum og vildi spjalla við okkur. Hún bendir okkur á einn merkilegan punkt sem nær engin umfjöllun hefur verið um í þessu mikla fjölmiðlafári um þessi málefni. Það er að lögbrot á sér stað við þessar aðstæður. Þ.e. ef drengurinn er eldri en 15 ára er hann ábyrgur fyrir gjörðum sínum og má því dæma hann sem fullorðinn. Það er ekki erfitt að sýna fram á að þarna fari fram nauðung, sala á kynlífi, ofbeldi, prettir og beinlínis sé verið að plata stúlkurnar til gjörða sem þær vita ekki alveg hvað felst í eða vilja ekki gera. Þá er einnig hægt að skoða þetta út frá misnotkun á börnum eða unglingum. Þetta eru mjög alvarlegir hlutir sem ættu ekki að viðgangast í jafn litlu og vel þróuðu þjóðfélagi og Ísland skartar. Þetta er til dæmis málefni sem mætti ræða á V-deginum. En hvar eiga forvarnir að fara fram í þessum málefnum? Það er í fyrsta lagi á heimilum barna og unglinga. En staðreyndin er að hópur fátækra stækkar dag frá degi og fjölskyldur innan þessa hóps hafa oft lítinn tíma til samvista við hvort annað. Þetta er reyndar líka staðreynd með margar aðrar efnismeiri fjölskyldur því foreldrar á þeim bæ eiga til með að missa sig í vinnuframahugmyndum þar sem ferillinn skiptir mestu máli í lífinu. En hjá fátækari fjölskyldum er staðreyndin sú að ekkert öryggisnet er fyrir börnin sem ganga með lykil um hálsinn allan daginn og eru jafnvel að passa yngri systkini heilu dagana. Það er eins og stjórnvöld loki augunum fyrir þessum vanda og bíða með að horfast í augu við vandamálið þangað til þessir krakkar eru komin í algjöra óreglu og farin að brjóta lög. Gott dæmi um skammsýni íslenskra stjórnvalda. Einnig er kynfræðsla hluti af námsskrá íslenskra grunnskóla en mín reynsla er sú að hún sé af skornum skammti.

|

mánudagur, mars 07, 2005

hahahahaha, æi, hvað þetta er fyndið!

http://www.politiken.dk/media/grafik/3835.gif

Fisse = kvennmanssköp
Bajer = bjór
Kunstneriske frihed = listsköpunarfrelsi

|
Það er sagt að páfinn muni komast af sjúkrahúsinu fyrir dymbilviku. Staðreynd er hinsvegar að páfakosningar nálgast þar sem páfinn er ekki ódauðlegur. Ef fólk vill kynna sér hvernig nýr páfi er kosinn mæli ég eindregið með bókinni ,,Angels and Demons" eftir Dan Brown. Einnig er hægt að líta við á þessum vef hérna: http://search.eb.com/, Britannica online.
En dymbilvika! Það er gaman að vita hvenær hún er og hvers vegna hún heitir svo. Dymbilvika er elsta íslenska heiti á vikunni eða dögunum fyrir páska. Hún heitir svo eftir trékólfinum sem settur var í kirkjuklukkur svo hljómur þeirra yrði mattur og dimmur (http://www.kirkjan.is/?trumal/truarlif/dymbilvika). Þessi vika varð að því sem hún er í dag vegna atburða er áttu sér stað 33 e.kr. Þá sveik Júdas, Jesúm Krist fyrir fulla peningapyngju. Jesú dó en reis upp sem lifandi væri nokkrum dögum síðar. En var hann enn með síðusárið eftir upprisu? Ég aðeins spyr. Er þetta spurning sem Bóas ætti að geta svarað? Pabbi hans er prestur.

Mitt MH hjarta sló nú hratt í síðustu viku þegar MH atti kappi við Borgó í Gettu Betur. Það var sárt að sjá þá glopra sigrinum úr höndum sér í lokin. Ég verð að segja að ég vissi svarið við svona 70% spurninga sem líklega er nýtt persónulegt met. Játning: Ég fór einu sinni í inntökuprófið fyrir Gettu Betur liðið, á mínu fyrsta ári í MH. Ég var í neðsta sæti með eitt og hálft stig. Mér fannst það afar fyndin pæling á sínum tíma. Ætlaði að koma út úr prófinu með engin stig en klúðraði því, ég svaraði óvart einni spurningu rétt. Í þessa daga var ég á móti almenningsáliti og lék mér að því. Í dag er mér enn nokkuð sama um álit annarra á mér, en ég kemst ekki hjá því að vera óneitanlega minntur á duttlunga annarra manneskja sem draga líf sitt á sorasögum náungans.

Meginfrétt vikunnar er sú að Assad Sýrlandsforseti segir rangt að líkja sér við Saddam Hussein, hann vill Alþjóðlegt samstarf.

?

|

laugardagur, mars 05, 2005

Var á kaffihúsi á fimmtudaginn.
Það var kona á næsta borði sem sat ein og las bók.
Hún byrjaði að skellihlæja og benti á bókina eins og það væri eitthvað sem hún vildi sýna öllum, án þess að líta upp úr bókinni.
Það fyrsta sem kom upp í hugann var: ,,konan er ekki að tala í GSM, hún á gott!"

Það er kominn tími til að gera eitthvað úr þessum magnaða miðli (medium rare?). Hef því ákveðið að sækja hinar ýmsu stéttir landsins heim og spyrja svo: ,,Hvað er að vera ..........?" Ætla ég að spyrja t.d. stjórnmálamenn, afgreiðslufólk, námsmenn, ellilífeyrisþega o.s.frv.
Ég hóf leikinn á að spyrja föður minn Odda, hvað það væri að vera sálfræðingur:
,,Að hafa fengið viðurkenningu frá Heilbrigðisráðuneytinu til að geta kallað sig sálfræðing vegna þess að viðkomandi hefur lokið tilskildu námi"

En hvað er það sem hefur aðallega verið að fara í taugarnar á mér upp á síðkastið?
Þessi hérna pæling!

Breytingin á Hringbrautinni, ein verst skipulagða og vitlausasta framkvæmd í Reykjavík á seinni tímum! Skammtímalausnir virðast vera málið hjá stjórnvöldum þessa dagana! Vatnsmýrin, hvar kemur hún inn í þessa mynd?

þessar framkvæmdir leiða til þess að mér er nær ófært að labba í skólann á morgnana. Þessar framkvæmdir leiða til þess að ég er 25% lengur í skólann en við eðlilegar aðstæður, ég verð að ganga yfir Miklubrautina tvisvar til að komast minnar leiðar. Hvernig verður þetta svo þegar framkvæmdum er lokið?

|

fimmtudagur, mars 03, 2005

Ég skrifaði um daginn að ég ætlaði að tala um róttækar aðgerðir og kvartanir í sínum sanna skilningi. Ég vil byrja á að nefna að Ísland er afar ungt land með ungt hjarta og sál. Það getur verið afar gott, fólkið er ísett miklum dugnaði og seiglu, þjóðin er alltaf að sanna sig sem "stórþjóð" á öllum mögulegum sviðum alþjóða samskipta, hvort eð er á menningar- eða viðskiptasviðinu. En lýðræðið er að sama skapi ungt og er fólk því með litla tilfinningu fyrir hvað raunverulegt lýðræði felur í sér og sættir lýðurinn sig því við að búa í Bananalýðveldi þar sem:
- Sami maðurinn sat á æðsta valdastóli þjóðarinnar í rúm 13 ár
- Maðurinn sem tók við af honum klæddist ávallt selskinnskápu, að vetri jafnt sem sumri
- Valdamenn lýðveldisins þurfa ekki að gera grein fyrir ákvörðunum sínum og /eða mistökum
- Valdamenn þjóðarinnar þurfa ekki að gjalda fyrir mistök sín.
- Mjólkurkýr ríkisins seldar fyrir kúk á kanil, þ.e.a.s. minni fúlgu en hagnaður á mjólk kýrinnar á tveimur árum
- Skattar lækka almennt, á heildina litið því fyrirtækjaskattur lækkar svo mikið, því er lógískt að líta á sem svo að allir séu að græða
- Eitt samráðið er látið viðgangast meðan önnur fyrirtæki eða hringamyndanir eru afar illa liðnar
- Ráðamenn þurfa ekkert endilega að vera samkvæmir sjálfum sér því allir eru svo fljótir að gleyma
- Hægt er að fá tvöföld laun og hækka þau að eigin vild, ef þú bara dettur í fjögurra ára lukkupottinn
- Einkavinavæðing er bara vel liðin, þetta er bara eðlileg þróun segir fólk
- Ráðamenn segja eitt, gera annað og hafa svo aldrei verið vinsælli.
- Talað er um gott, ódýrt heilbrigðiskerfi og gott félagsnet, því þarf frekar háa einstaklingsskatta, samt er dýrara að leggjast hér inn á spítala en á t.d. Spáni sem er eitt af fátækari löndum N-Evrópu.
- Eldra fólkið í samfélaginu getur ekki eignast íbúð þótt það hafi unnið allt sitt líf hörðum höndum
- Það er litið á ókeypis háskólanám sem mismunun því fólk í einkareknum háskólum þarf að borga skólagjöld
- Það að eignast peninga þýðir bílakaup, tölvukaup og nýtt áhugamál í dýrari kantinum
- Það eru bara nískupúkar sem spara pening
- Hamingja kemur með fallegum hlutum
- Sinfoníuhljómsveitin og leikhúsið eru ekki að skila hagnaði, því þarf að leggja niður ríkisstyrki
- öryrkjar eru frekar latt fólk að eðlisfari
- Maður lemur konu sína í fullum rétti af því að hún reitti hann til reiði
- Blaðið gerir sér mat úr ógöngum andlega og líkamlega fatlaðra mannsekja

Að sjálfsögðu er mikilvægt að kvarta, vera meðvitaður um réttindi sín og láta ekki vaða yfir sig. En kvörtun mun ekki berast fyrr en eyru hlustanda eru opnuð með ágætis ýtingu eða stuði.



. Ég kemst ekki hjá því að sjá lækninn fyrst og fremst. Er þetta heimilislæknirinn þinn? Mér finnst eitthvað rangt við þetta þótt fúlmenni sé hinumegin við tréspýtuna! Allir menn hafa sín grunnréttindi. Hanskaklæddi maðurinn er stétt sinni til skammar!

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?