<$BlogRSDURL$>

mánudagur, september 27, 2004

Haustlitir og form  

Ég er kominn í jólafrí. Jólafrí sem er stanslaus lestur áhugaveðra bóka í átta daga. Ég hef ákveðið að eyða þessu jólafríi að hluta í sumarbústað við Álfavatn. Þar mun ég njóta haustlita og áhugaverðra fræðirita. Svo ég er farinn og kem ekki aftur til borgarinnar fyrr en seint í vikunni eða í upphafi næstu. Ég var að klára verklegt vefjapróf en það er lítið sem má kallast verklegt við það. Sitja í sæti og horfa á slides varpað upp á vegg af hinum ýmsu mism. vefjum. Eins verklegt og vefjafræði getur orðið; koma augunum úr smásjánum og upp á vegg.
Þá er próf í iðrum 5 október. Svo kemur madness skemmtilegheit í óendalegu flippi.


|

miðvikudagur, september 22, 2004

Fyrir lengra komna 

Ég var kominn niður á Bankastrætið.
Rangeygða konan virtist hafa elt mig.
Hún horfði enn djúpt í augu mín
þegar ég leit við öxl.
(Ég fékk hausverk af svona einkennilegri störu)

Ég var svo upptekinn af þessu
að ég tók ekki eftir fyllibyttu
sem ætlaði að stöðva mig,
biðja um að kók eða 100 kall.

Ég gekk fyllibyttuna um koll (sem hét Ásmundur, gamall vinur pabba)
og þurfti því að splæsa kók.
En konan horfði rangt
á mig enn eina ferðina

Ég ákvað því að ganga
yfir götuna og tala við hana.
,,Heyrðu, viltu hætta að horfa svona ranglega á mig,
þú gætir verið amma mín”.

Áttaði ég mig þá á því
að þetta var röng kona.
Þessi var ekki rangeygð,
hún var tileygð.

Hún horfði á mig tilleitin
þegar ég gekk í burtu.
Ég snéri mér þó við og sagði;
,, Fyrirgefðu, vitlaust götuhorn”

|

Byssuskaft og kústskapt 

Ég gekk niður Skólavörðustíg.
Það stóð kona á næsta götuhorni,
eldri en ég.
Hún var rangeygð.

Hún gaf mér auga
sem var kolrangt
og tillitslaust.
Eins og ég hefði aldrei labbað þessa götu fyrr.

|

þriðjudagur, september 21, 2004

Hamin gleði, heft með ð-i 

Ég fer út að hlaupa daglega.
Mér líður eins og Rocky í annarri mynd sinni þegar hann hleypur upp tröppurnar við þinghúsið í Philadelphia (ég hef nefnilega komið þangað, það er Rocky stytta eftir efstu tröppuna).

Ég blæs vart úr nefi (enda anda ég út með munninum og inn með nefinu, gamli handboltaþjálfarinn minn Nonni kenndi mér þetta, sérstaklega gott þegar kalt veður væri, maður hitar loftið betur upp svona. Hann gafst þó upp á að þjálfa drengi í handboltastjörnur þegar hann komst að því að eldri konur í erobic hefðu mun meira þol en við strákarnir, hann hataði ekki að bera okkur saman við kellingarnar í erobicinu sem hann var einnig að þjálfa).

Ég hleyp eins og mannvígt naut (sérstaklega þar sem ég hef heyrt að mikið sé um ofbeldishneigða homma á vissum stöðum í Öskjuhlíðinni, ég verð að hlaupa þar í gegn, afar hratt til að komast heim).

Ég hleyp framhjá húsinu hennar Önnu Rutar hvern einasta dag (vona að hún sjái mig, hugsi: ,,Ha Kalli, en gaman" og bjóði mér í kaffi og með. Þetta er við síðasta spölinn, fæ ég alltaf frekar flippaðar pælingar um hvernig ég gæti mögulega stoppað í smá stund, ein fjallar um að fara á Veðurstofuna og spyrja til verðurs næstu daga)

Ég sá tvo þorskshausa, tóma að innan liggja á götunni í gær (hvernig get ég verið svona viss um að það hafi verið þorskhausar, ég hljóp svo hratt fram hjá? Hvernig öðruvísi fiskhausar ættu að liggja á götunni; Grásleppuhausar? Tæp pæling).

Ég fór að hugsa hvað þessir tveir "þorsks"hausar gætu meint. Eru allir tómir þorskshausar í kringum mig? Þarf tvo til að vitleysa brjótist út? Ef aðeins einn væri til staðar væri enginn til vitnis um vitleysuna í honum. Er lífsgatan ekkert nema tóm beinagrind sem finnur sér aðra beinagrind, en saman enda þessar tvær beinagrindur á sama stað án alls tilgangs?

En aðal hugsunin var; Hver skildi þessa tvo umkomulausu hausa eftir á götunni fyrir allt og alla að líta á? Var það feitur köttur? Var það listamaður? fuku þeir frá Vestfjörðum til Reykjavíkur í óveðrinu síðustu viku? valt flutningabíll fullur af tómum hausum, eða tómur af fullum þorskum þar rétt hjá?

Af hverju voru hausarnir tveir?

Þegar ég kom heim var ég engu nær. Þorskshausar eru þó mikill tungubrjótur, er essinu þarna ofaukið? Það væri allavega auðveldar að segja orðið ef svo er farið.

|

fimmtudagur, september 09, 2004

Klámvísur og forvarnir 

Þetta er allt svo ósköp eðlilegt og skemmtilegt.
Að læra til 12.00 og sofa í sex klukkutíma. Að borða, lesa fræðitexta, drekka kaffi og te.
Ofsykursát er víst jafn hættulegt reykingum, ekki var tekið fram hverskonar reykingar þetta væru og Hollenskur maður fékk 1700 lítra af saur inn í bílinn sinn þegar hann stoppaði á rauðu ljósi seint um kvöld. Svo ekki sé athugað nánar að endurgerð Alþingishússins sé næstum búin. Allt þetta les maður í Morgunblaðinu og margt fleira, t.d. er Bjarni Fel. byrjaður aftur með samantekt af enska boltanum á ríkisfjölmiðlinum.
Og það er gott að búa í Reykjavík. Ég verð samt ekki í Reykjavík næstu helgi, ég verð í Þjórsárverum, nálægt Villingaholtskirkju og í 10 min. akstri frá London, nei ég meina Selfoss. Ég hef frétt að það sé hættulegra að fara niður í bæ á Selfossi en í Reykjavík. Þó er Keflavík hættulegasti bær landsins því það er svo auðvelt að lenda í bílslysi, þeir eru svo mikið fyrir að rúnta. Ef þeir (hnakkar og hnakkstúlkur) hitta þig síðan ekki með bílnum stíga þeir einfaldlega út með bjórglas í hönd og flengja því í kinnina á þér. Það er gott að búa í Reykjavík.
En það sem ég er að fara að gera í Þjórsárverum er að fíflast, fræðast um forvarnir gegn óábyrgu kynlífi og kynnast annarri hlið bekkjarfélaga minna hérna í deildinni. Óábyrgt kynlíf getur leitt af sér kynsjúkdóma og ótímabærar þunganir sem geta leitt af sér fóstureyðingar eða unglinga fæðingar.
Ég hef verið að gagnrýna Ísland og íslenska menningu upp á síðkastið, ég stend við mínar skoðanir og vill meina að það sé þónokkur sannleikur í mínum orðum.

Comming öpp: Ég hef lengi viljað gefa út ljóðabók til að komast í flokk semifrægra gengja á götum Reykjavíkurborgar. Ég held að þetta sé eini sénsinn minn til að gerast einn af þeim þar sem margir af mínum góðvinum hafa ákveðið að fórna síðdeginu í að verða heimsfrægir tónlistarmenn á Íslandi. Ljóðabókin mun koma út um jólin (að sjálfsögðu) og ber hún prónafnið:
,, Sjá eftir eftirsjá" Listaspírulegt nafn er það ekki.

|

föstudagur, september 03, 2004

Ísland eldgamla Ísland, ástkær fósturjörð? 

Ég kom til baka kl. 22.10 tuttugasta og níunda ágúst. Ég var með tólf kíló í yfirvigt. Konan sem tékkaði mig inn var þó afar vingjarnleg og lét mig ekki borga neitt aukalega. Ég er byrjaður aftur í skólanum.

Daginn sem ég flaug frá N.Y.C. til London hitti ég Dominic vin minn sem vann með mér í sumar. Við hittumst á 1. Avenue í Manhattan. Við löbbuðum um göturnar og töluðum um hvað framtíðin bæri í skauti sér. Þar kom búseta, peningar og dömur til sögu sem og mörg önnur huglæg viðfangsefni. Þegar við höfðum gengið í um klukkutíma ákvað ég að bjóða honum til Williamsburg, Manhattan til að setjast niður og fá okkur jafnvel eitthvað að borða. Við keyptum bjór á leiðinni. Við gengum inn í íbúðina á fjórðu hæð og settum mússík á fóninn. Við héldum áfram að tala um mikilvæg mál. Þá kláraðist bjórinn og við ákváðum að fara út í búð, kaupa okkur eitthvað að borða og meira að drekka. Við settumst aftur við borð í íbúðinni sem frænka mín Hrafnhildur býr í. Við drukkum meira og áður en ég vissi var tími til kominn að fara í undirbúninginn fyrir flugið. Hrafnhildur kom heim og fylgdi mér ásamt Dominic að neðanjarðarlestinni. Ég var kátur og léttur í lund (ég drakk sex eða sjö bjóra, voru þó litlir) með þrjár þungar töskur til að taka með mér á JFK. Ég fór í gegnum alla Brooklyn og þurfti að skipta um lest á miðri leið. Það var frekar skrítið að vera eini hvíti maðurinn á svæðinu, frekar léttur og og með þrjár fullar, þungar töskur.

Allt gekk vel, ég kom til London um morguninn á föstudeginum 27 ágúst. Gisti eina nótt á hosteli og laumaði mér síðan inn í herbergi hjá Valla og Haffa frænda hans síðari nóttina. Það var nokkuð mix þar sem þeir þurftu að hringja á dyrabjöllu og láta opna fyrir sér til að komast inn. En allt fór aftur vel, ég svaf á gólfinu. Bjórinn, bækurnar, maturinn og stelpurnar voru allar fínar í London. Þá kom ég heim í rok og rigningu, beint í skólann og enginn tími til að gera það sem hugur girnist. Mér var farið að finnast Ísland, Íslendingar og íslensk menning smáborgaraleg og plebbaleg. Orðinn frekar þungur í lund og hugurinn reikaði ávallt á erlenda grundu. Þá hugsaði ég með mér, getur það verið ég sem er orðinn smáborgaralegur plebbi?

Ég setti Nat King Cole á fóninn.

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?