<$BlogRSDURL$>

þriðjudagur, nóvember 23, 2004

Ósanngirni, Viktor J. 

,,Opinberar tölur benda til þess að Viktor Janúkóvíts, forsætisráðherra, hafi sigrað en stuðningsmenn Viktor Júsénkós, fulltrúa stjórnarandstöðunnar, neita að viðurkenna þau úrslit og segja þau fengin fram með brögðum" Setning tekin af mbl.is.

Og hver voru þessi brögð þá? Tvær mögulegar kenningar
1)Jú líklega hefur nafn Viktors Janúkóvits verið ofar á kosningarmiðanum þar sem hann er á undan í stafrófsröðinni, fólk sem hefur verið illa sofið eða bara gamalt og hálf blint krossaði þá óvart við hann.
2)Þá hefur nafn Viktors Júsénkós líklega ekkert verið á listanum, heldur nafn Viktors J. verið skrifað tvisvar á kosningarmiðann. Úkraínumenn kalla fólk nefnilega eftir fornöfnum sínum og láta svo bara fyrsta stafinn í eftirnafninu fylgja með. Hver vann þá kosningarnar í Úkraínu?

|

mánudagur, nóvember 22, 2004

Ég dæmi ekki fólk, það dæmir sig sjálft. 

Ég veit ekki með ykkur, en ég er dæmigerð manneskja með mína kosti og galla. Lífsleiknin er að láta skína meira í kostina en gallana. Það getur verið fjandi erfitt á tímum. T.d. þegar maður verður reiður út í annað fólk eða einfaldlega út í dauða hluti.

Það er afar auðvelt að yfirfæra þessa reiði yfir á eitthvað annað en því sem reiðin raunverulega beinist að:

Maður sem einfaldlega þolir ekki að sjá fólk í gulum jökkum, vinur hans átti gulan fallegan jakka í hátísku þegar hann var yngri en foreldrar hans vildu ekki gefa honum svona dýra flík svo þeir keyptu handa honum ljótan, köflóttan, skræpóttan anorakk frá Halldóri skóara (sem flutti inn sínar eigin vörur). Hann ákvað að það væri betra að verða blautur eða kaldur inn að beini frekar en að láta sjá sig í þessu skrípatóli. Eitt kvöldið er sá hinn sami maður á gangi heim úr vinnunni og sér eldri konu ganga á móti sér í gulum jakka, hann verður reiður, reiðari, tilfinningin nálgast beint brjálæði þegar það byrjar svo að rigna, maðurinn er orðinn kaldur og blautur, rétt eins og í gamla daga. Hann hefur samt ekki hugmynd um hvers vegna hann er orðinn svona reiður, heldur að það sé vegna óhagstæðra úrslita sem uppáhalds liðið hans varð fyrir fyrr um daginn. Hann kemur heim, konan hans ákvað að gleðja hann og koma fyrr heim úr vinnunni og útbúa góðan mat handa honum. Því hefði konan hinsvegar betur sleppt því svo vill til að móðir hans eldaði samskonar rétt kvöldið sem hann fékk ljóta anorakkinn að gjöf.
Maðurinn gengur Berserksgang, æðir um gólf og blaðrar eitthvað um gular baunir og fiskibollur í dós.
Maðurinn hefur misst vitið, hann ræður ekki við reiði sína, honum tamdist aldrei sá leikur að troða allri reiði lengst niðri í maga og taka hana með í gröfina. Hann nær gengur af sjálfum sér dauðum eftir að hafa sagt konu sinni að fara þar sem sólin skín ekki frá júní til enda maí. Maðurinn tekur á það ráð að fá sér sundsprett í sundinu bláa milli hafnarbakkanna til að kæla í sér ofsann.
Það er hætt að rigna, sólin gægjist kæruleysislega milli skýjanna (eins og hún sé nýkomin úr aðgerð og sé ekki alveg búin að jafna sig eftir kæruleysispilluna og öll hin deyfilyfin). Sólin er gul, allt í einu áttar maðurinn sig á því af hverju hann brást svona asnalega við aðstæðum. Það er langt í frá að sólin blindi hann, hún hefur opnað augu hans, gul og skær. En það er um seinan, hann bar enga fitu á sig og deyr því úr kulda, eða kannski óeðlilegri reiði sem beindist að vitlausum hlutum.

Verum meðvituð um óeðlilegar, heftar tilfinningar, stundum forvarnir, kennum rétt viðbrögð við rangri reiði.


|

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Handan veruleikans 

Það var komið að því, Steingrímur J. Sigfússon var dáinn. Þessi mikli og vitri minnipokapólitíkus hafði barist fyrir sínum prinsippum allt sitt líf án þess að gefa mm eftir. Þótt margir virtust hafa verið sammála honum fékk hann aldrei það fylgi í kosningum sem honum bar.
Múgur öfga-jafnréttissinna safnaðist saman á Austurvöll til að kveðja þennan mikla mann, skotið var úr haglabyssum og loftbyssum, loftið yfir vellinum fylltist gufumekki útöndunar mótsmanna. ,, Lifi Steingrímur og jafnrétti manns og náttúru" var hrópað. ,, og jafnrétti stéttanna". Ég var í miðjum hópnum og við það að kremjast undir fótum reiðra mótmælanda. Fólkið var að mótmæla ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að Steingrímur fengi ekki að hvíla í heiðursreit kirkjugarðins á Laugaveginum, fannst mörgum þar vera um pólitíska ákvörðun að ræða. Allt í einu myndaðist mikil bylgja í mannskaranum, fólkið kramdist undir og hrópin sem urðu enn hærri, köfnuðu í látunum í byssunum. Þessi óvænta bylgja var orsökuð af skyndilegri aðkomu bláliða, sérsveitar lögreglunnar í Reykjavík. Blámennirnir (eins og sérsveitarmenn lögreglunnar eru kallaðir, ganga í einkennisbúningi sem einkennist af bláum grunni, með rauðum og helmingi fleiri hvítum röndum) ruddust að múginum úr öllum áttum, með heita byssukjammana miðaða á skrílinn. Ég reyndi aðforða mér eins hratt og ég gat en ætlaði aldrei að komast úr sporunum því fólksmergðin var fyrir mér hvert sem ég leit. í öllum látunum gleymdi ég að ég hélt á gömlu kindabyssunni hans frænda sem bjó á Flúðum. Ég skaut sjálfan mig í fótinn, ristin tættist upp og ég veinaði af sársauka. Fólk í kringum mig hjálpaði mér á fætur og kom mér frá vellinum sem var orðinn rjóður af lit blóðsins sem rann úr líkunum allt í kringum mig.
Eftir nokkra daga þurfti að taka fótinn af mér. Það gerði læknir sem bjó í götunni minni. Þetta var gert inni í stofunni heima hjá mér. Ég átti ekki pening til að fara á sjúkrahús, og ef ég hefði átt hann hefði ég aldrei farið því þeir hefðu þá komist að því að ég var einn af þeim sem voru á Austurvelli að mótmæla ákvarðanatöku ríkisstjórnarinnar.

Það er seint í nóvember sem ég geng um göturnar, veturinn hefur enn eina ferðina bankað á hurðina hjá landsmönnum með nístingskulda og köldum tám. Ég hleyp eins hratt og ég get í bankann, kári bítur, kem ekki jólalagi úr huganum sem ég heyrði í útvarpinu í gærkvöldi.

|

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Ekki fyrir viðkvæma 

Ég fór í íþróttir í gær. Ég hjólaði og hjólaði án þess að færast úr stað, svitalínan var horfin því allur bolurinn var gegnumsósa af svita.
Ég var að labba heim úr ræktinni. Ég var annars hugar við að hugsa um örlög mín næstu misseri. Ég tók upp snjó, bjó til kúlu og reyndi að hitta glugga á næsta húsi. Ég hitti ekki og tók því til við að búa til aðra kúlu og reyna að hitta gluggann. Ég meinti ekkert illt með þessu og gerði þetta annars hugar, eins og þetta væri bara vinnan mín en ég hefði engan áhuga á henni. Ég tók ekki eftir eldri manni, svona um sjötugt nálgaðist mig óðfluga með glott á vör, augum og líkamstjáningu. Hann tók sjálfur upp snjó af nálægu grindverki, en hann var ekkert að hnoða snjóinn. Maðurinn gekk að mér rólega, eins og hann ætlaði að ganga fram hjá mér, vatt sér allt í einu upp að mér og tróð snjónum harkalega í andlitið á mér. Ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera, ég var fullur bræði og heift, en hvað átti ég að gera, endurtaka það sem hann gerði mér eða bara leiða hann á eyranu heim til sín eða niður á löggustöð? Nei fáránlegar pælingar hugsaði ég með mér, það er lítið sem ég get gert við þennan mann, hann má bara vera heppinn að ég hafi ekki verið einn af þessum klikkhausum sem ræðst á gamalt fólk og minnimáttar. Hann horfði á mig sakaraugum en gekk ekki í burtu. Ég hálf öskraði: ,, Hvað er að þér helvítis gamli kall?". Hann sagði ekki neitt, bara horfði á mig. Ég róaðist aðeins. Hann horfði enn þá á mig, fast, beint í augun.
Auga fyrir auga, og tönn fyrir tönn. Nei það gekk ekkert upp því hann var greinilega með gervitennur svo það yrði ekki sanngjarnt. Ég spurði hann að lokum hvort hann ætti nokkuð heima þarna. Hann svaraði í hásum og ergilegum tón: ,, Ég á ekki heima þarna vitleysingurinn þinn, þetta er húsið þitt".
Ég varð gáttaður, hvað var hann að skipta sér af því að ég væri að kasta snjóbolta í gluggann hjá sjálfum mér. Ég gekk í átt að dyrinni, hurðin var falleg með þennan jólakrans á sér miðri. ,,Eru allir búnir að missa sig í þessu jólamadnessi" segi ég lágt við sjálfan mig.

Föt: Blend, Rúmfatalagerinn, styrkt af mömmu og pabba
Klipping: Grjóni í Rauðhettu og úlfinum
Gleraugu: Gleraugnaverslunin fyrir neðan skrifstofuna hans pabba míns á Laugarveginum

|

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Tilvitnanir; Tilgangur lífsins er: Að taka til og vökva blómin. Níels 

Ég er búinn með helgina. Hún var drjúg og ánægjuleg, ekkert drukkið, engin blackout og fullt af minningum. Ég held að allir munu bjóða mér í afmælið sitt eftir þessa helgi, ég var svo skemmtilegur.

En hvað um það. Núna er snjór úti og umferð. Það er búin að vera stanslaus umferð í 4 klst. fyrir utan gluggann þar sem ég sit og les. Allir að keyra á tuttugu og klessa á. Já klessa á, þetta er eins og í klessubílunum í Tivolí í Köpinhafn. Og hver er í Köbinhafn einmitt núna, jú hún Alma, ásamt mörgum öðrum(,) Dönum, Íslendingum, Tyrkjum og Svíum að missa af fyrsta íslenska snjónum sem gefur il í hjartarætur (hvar sem þær nú eru) og miklar andvökunætur því götuljósin endurspeglast svo fallega og ýkt í snjónum að herbergið mitt er eins og í geimskipi úr X-Files þáttunum.
Og ég hef fengið nasaþefinn af því að vera í læknisfræði, ég er farinn að halda að ég sé haldinn öllum þeim sjúkdómum sem ég les um. Allavega hef ég verið að fylgjast með blóðþrýstinginum mínum. Þetta yfir þessu og hitt yfir hinu. Ég er hættur að sofa vegna þessa, ég mældist með 147/89, og í morgunsárið að auki, ég þurfti kaffibolla til að róa mig niður.

Sögur af djamminu. Vinkona mín og aðra vinkonur mínar hittust í matarboði um helgina. Ég mætti líka, borðaði, talaði og fór. Þær fóru niður í miðbæ, ég fór í Vesturbæ. Ein þeirra sat við borð á Circus og horfði á ofurölvað liðið svitna í holhönd og klofi. Gekk upp að henni maður og blés á kertið á borðinu sem hún sat við. Hann blés heitu, bráðnu vaxi í augað á henni og snéri sér við eins og ekkert hefði í skorist, þetta væri bara ósköp eðlileg mökunarathöfn, brandari eða lífsspeki sem honum sjálfum kæmi við og engum öðrum.

Annað skemmtilegt heyrði ég í Laugardalslaug á sunnudaginn er ég hitti fyrir kunningja minn Steingrím Karl. Hann sagði mér svo skemmtilega frá því að þegar hann var yngri, hélt hann að dauða hans myndi bera að í Kanada. Og eitt sinn þegar hann lenti í alvarlegu slysi og var fluttur á sjúkrahús með hraði var hann spurður hvort allt í lagi með hann. Hann sagði fólki að hafa engar áhyggjur, Hans dauðdagi yrði í Kanada.

Nú er ég hlaupinn út í snjókast að kaffæra fólki í læknadeildinni sem ég hef verið aðeins of mikið í kringum síðustu mánuðina.

Góða skemmtun og ánægjulega ævidaga

|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?