<$BlogRSDURL$>

föstudagur, janúar 28, 2005

Uhu (rt), Kjaftakerling 

Ég alhæfði hér í blogginu mínu fyrir skemmstu að tíminn liði hægar í útöndun en í innöndun. ÞAÐ ER SATT, tíminn líður hraðar þegar maður andar að sér. Þetta er hægt að sanna. Málið er að hjartað hægir á sér þegar andað er út, þetta kallast sinus ........., ég ætla ekkert að vera einhver fjandans fagidíot. Þá er um að gera að halda útöndunni eins lengi og hægt er, ekki tala á innöndunni og synda mjög mikið því þá nær maður góðri tækni í að anda.
Lengdu líf þitt, lifðu í og á útöndun.

Ef íslenska ríkið ætlar að gera það sama og var gert í Hvíta-Rússlandi er ég farinn til útlanda, allavega þegar ég fer í sérnám. Mennirnir þarna í Hvíta-Landinu höfðu áhyggjur af því að popp frá Rússlandi væri að tröllríða heimamarkaðinum svo þeir gerðu sér lítið fyrir og bönnuðu erlenda tónlist. Ætli Bach og Shubert hafi líka verið bannaðir? Ef þetta mun gerast hér á landi, þ.e. ríkistjórnin græti nokkra frjálshyggjumenn enn eina ferðina verð ég líklegast að kaupa mér alla diskana með Birgittu og Jónsa. Ég hef heyrt að textarnir þeirra séu djúpir og innihaldsríkir. Nei kjaftæði, allavega ekkert fyrir mig, ég yrði Mínus aðdáandi númer eitt, passið ykkur grúppíur á öllum aldri.

Þá hefur fólk ekki verið að trúa því sem stendur hérna. Er ég lygari? ósannsögull? Tilberi? Rógberi? Fjallberi? lygasjúkur nautnaseggur? Nú er mér nóg boðið, héðan í frá skal enginn trúa því sem hér er sagt. Kominn tími til að gera eitthvað úr heitinu á síðunni, gerast kjaftakerlingur. Jú jú það má alveg trúa svona 85% ( þó kannanir sýna að kannir með prósentureikning séu aðeins um 60% marktækar!) af því sem hér er sagt, ég er mikið fyrir að fegra hlutina og er því líklega á leiðinni í lýtalækninn. En staðreyndir standa. Það er staðreynd að bíllinn sem ég eyðilagði var metinn á 350 þús. kall en viðgerðin kostar 500 þús. kall. Reikni hver sem reiknað getur. Ég var heppinn að bíllinn væri ekki hefnigjarn og hafi ákveðið að eyðileggja mig og fleiri í hefndarskyni.

Lifið heil þangað til eftir helgi, ég er alltaf svo upptekinn um helgar í persónulegum málaerindum að ég hef ekki tíma til að skrifa.



|

mánudagur, janúar 24, 2005

Flipp í bókstafslegri merkingu 

Þetta gekk flest eftir. Brettaferðin í Skálafell heppnaðist fullkomlega, Raggi frekar lemstraður eftir fyrstu þrjár ferðirnar en lét ekkert stoppa sig. Potturinn um 39°C, borðað til miðnættis og vínið klárað. Setning kvöldsins var þegar Bóas ákvað að smakka vínið og meta: ,,vá, þetta er eins og að drekka blóð". Þá sagði Raggi: ,,nei, þá er um að gera að drekka safann úr svínahnakkanum".
Við vorum í pottinum til klukkan fimm um morguninn. um klukkan sjö bauð ég Bóasi upp á jarðaberjate með góðri músík undir eftir að hann sofnaði næstum í sturtunni sem var afar leiðigjörn því næstum allt heita vatnið fór í rennsli á heitapottinum. Eftir að hafa dottað ofan í bollann nokkrum sinnum sagðist hann ekki meika þetta og fór að sofa. Ég tók til og las í bók sem einhver gleymdi í bústaðnum. Ég gat ekki farið að sofa, var of búinn á því, of mikið hafði gerst um daginn.

Við vorum komnir fram hjá Litlu Kaffistofunni, upp brekkuna og fram hjá stóra krossinum með tölu látinna í umferðinni í miðjunni og ónýta bílnum ofan á. Einum kílómetra ofar en það fer bíllinn á rás, hoppar úr ísilögðum förunum og allt í einu er bíllinn kominn 45° á ská á hinum vegarhelminginum, ég hugsa um myndbandið frá Vegagerðinni um hvernig eigi að bregðast við ef maður rennur í hálku. Þegar allt leit út fyrir að bíllinn mundi velta á götunni gat ég ekki lengur haldið kúlinu, ég beygði og bíllinn rásaði fram og til baka og í lokin stefndi hann út af veginum hægra megin. Ég sagði: ,,haltu þér" og bíllinn keyrði út af. Við keyrðum um fimm metra en þá var snjórinn svo samanþjappaður að bíllinn flaug um 180°, Flipp og lenti um 4-5 metrum fyrir aftan hjólförin. Bíllinn var í rústi, þakið samanþjappað milli mín og Ragga, framrúðan horfin og rúðan á Ragga hlið í smalli. Ég gat opnað rúðuna mín megin, rafmagnið virkaði enn þá og De La Soul var ennþá að blastandi á fóninum. Ég og Raggi komumst báðir út í gegnum rúðuna mín megin alveg skrámulausir. Ótrúlegt en satt, iPod-inn ennþá í lagi enn með margar djúpar rispur á framhliðinni. Guðrún og Bóas voru þremur bílum fyrir aftan okkur. Löggan kom, tók skýrslu, hringdi í Krók og bíllinn dreginn í burtu. Við ákváðum að halda áfram og við sáum ekki eftir því.
Ég er á lífi og Raggi líka, ómeiddir. Ég er þakklátur fyrir það. Ég er að vinna í því að koma myndum af bílnum og ferðinni inn á síðuna.

Skemmtileg frétt í Politiken, ekki vildi ég vera 5m hár með typpi upp á 5cm; 1% af hæð minni : http://politiken.dk/VisArtikel.iasp?PageID=356759
Ertu búin/n að gleyma skóladönskunni: http/www.ordbogen.com




|

laugardagur, janúar 22, 2005

Árla morguns. 

Ég er farinn á snjóbretti í Skálafelli, nei, Bláfjöllum. Skiptir ekki máli, ég veit ekki alveg hvað ég er að leggja í, ég ákvað að lána honum Ragga vini mínum brettið mitt gamla (sem er í frekar miklu rugli) og kenna honum á þetta í eitt skipti fyrir öll. Einhverjir fleiri ætla að fljóta með, jafnvel Siggi en ég hef heyrt að hann hafi þó ákveðið að mæta ekki í rall ársins í sumarbústaðinum mínum seinna í kvöld því hann eigi kærustu; Kjaftæði. heitur pottur, rauðvín, steik, tónlist, spil, tunglskins gönguferðir, almennt flipp, jafnvel bálköstur við ströndina, en umfram allt afslöppun í sumarbústaðinum í kvöld.
Nú er um að gera að setjast á stólinn fyrir framan píanóið og vekja alla í húsinu sem ekki eru vaknaðir með laginu Watermelon Man sem vill vera þekkt fyrir ótakmarkaðar fönklínur, í bland við Air eftir J.S.Bach

|

miðvikudagur, janúar 19, 2005

Símasex 

Ég verð að játa það að stundum líður mér eins og lífið sé sími, eða þá bara skiptiborð. Þegar ég vakna finnst mér lífið vera að gefa mér tóninn (A er það ekki?) sem heyrist þegar síminn er tekinn af tólinu! Svo fer að hringja um 9-10 am eftir að ég hef gert nokkrar tilraunir til að hringja í rétt númer. Stundum hringi ég skakkt og þá á geðill kona til með að svara. En loksins virðist ég hringja rétt, og þá svara ég sjálfur í flestum tilfellum en stundum svarar einhver önnur manneskja sem mér finnst ég þá tengjast á óútskýranlegan þátt, oft er þetta eins og línum slái saman. Svo verður samtalið mislangt, oft slitnar sambandið um tvö leytið en samband næst aftur eftir 20-40 min. Þegar líður á daginn fer oft sambandið að verða lélegt, skruðningar og læti og í lokin er einfaldlega ótvíræður:á tali tónn og veit þá að tími sé kominn til að leggja á. En oft var þetta bara bíll fyrir utan húsið mitt með þjófavarnarkerfið á fullu og líktist svona rosalega á tali tóninum.

|

sunnudagur, janúar 16, 2005

Og hvað á að gera við þennan dag? 

Fara í sund, kaupa pylsu, spóka sig í bænum með hatt og trefil. Hafa staf í hönd, ota honum að fuglunum og fólkinu sem gleymdi því að það væri janúar. Útvarpssagan er í fullum gangi þar sem fólk finnur skápa sem hafa verið lokaðir í um sextíu ár. Þar leynast ýmsir hlutir sem verða einkennilegri og dularfyllri sem lengra er farið inn í skápinn.

þá er að setjast að borðinu á Garðinum, spyrna fótunum í gólfið, halda í borðplötuna og lesa lífefnafræði eins og ég hafi aldrei gert annað nema þá að borða Thai mat endrum og sinnum.

En fyrst vil ég fara í fjallgöngu á nýju gönguskónum mínum sem ég hef ekki notað nógu oft.

Þá ber að nefna skemmtilegan drykkjuleik sem nokkrir læknanemar fóru í á föstudagskvöldinu. Það var svona leikur þar sem maður lætur eitt spil ganga milli manna með því að halda því að vörunum með sogkrafti. Þar var ekkert verið að spá í því að nú er hápunktur smitsjúkdóma eins og skæðu flensu og hálsstrekkingsbólgunni. Þá var einn í hópnum orðinn það blautur að hann borðaði spilið, fannst það afar fyndið, en aðrir sem ekki borðuðu spil drukku meiri flotbjór og fóru í einhvern annan leik, samkvæmisleik sem kallast "Down Town, getting down with it on Laugavegur" Sigurvegari er ótvíræður og aldrei verður jafntefli í þessum samkvæmisleik.

|

laugardagur, janúar 15, 2005

Aumingja brabra 

nú eru þessir aumingjans vinir mínir á tjörninni komnir af borginni, þótt þeir deili búsvæði með öllum borgarpólitíkusunum í Ráðhúsinu. Svo er mál með vexti að Borgin hefur ákveðið að hætta fóðrun á þessum öndum, gæsum og svönum. Oft vill svo til að mávarnir komast einnig í brauðið hjá manni, þá slær maður hendinni til þeirra því maður hefur heyrt að þeir borði unga annarra fugla. Nú þurfa ekki bara borgarbúar að finna fyrir niðurskurði og hækkuðum gjöldum borgarinnar, heldur einnig blessuðu vængdýrin. En af hverju hefur borgin hætt að fóðra fuglana?
- Því þeir skíta allt út, eru að kúka í tíma og ótíma á stéttirnar sem eru nokkuð hreinar fyrir. Má þá spyrja sjálfan sig hvort þetta séu hefndaraðgerðir vegna þeirrar einföldu ástæðu að gæsirnar neituðu að borga holræsisskatt (svokallaðan skítaskatt)
- Borgin vill sitja ein að Tjörninni, jafnvel sölsa undir sig afganginum af henni, byggja yfir tjörnina nýjan fótboltavöll
- Mikil hræðsla hefur skapast vegna hinnar svokölluðu fuglaflensu (Þetta er veirusýking, eina sem þekkt er svo ég viti sem berst frá fulglum til manna: Avrian influenza, H5NI afbrigði) á skrifstofum borgarinnar, sagt er að flensan eigi eftir að granda um 1/5 til 1/4 af mannkyninu.
- Mörg óleyst morðmál og mannshvörf hafa verið rakin niður að tjörn og liggja allir íbúar þar því sterklega undir grun sem gerendur í þessum óleystu málum. Er því verið að hrekja þennan
ólýð úr bænum
En afleiðingarnar eru skelfilegar, fulgarnir hafa þegar farið að sýna mikla og agressífa hegðun þar sem þær ráðast að fólki með brauð í hendi, bíta og garga, umkringja fólkið og borða allt sem dettur úr vösum og höndum viðkomandi, jafnvel bíllykla þrátt fyrir þeirra litla næringagildi.

Ég veit ekki með þig en ég fór niður í bæ í gær, fyrst í K.Y.N.H.V.Ö.T. (partí með læknanemum vegna forvarnarstarfs) í Kafarasalnum niðri við Nauthólmsvík en svo á Ellefuna niðri í bæ þar sem ég hitti meðal annars aðstoðarleikstjóra frá Slóveníu, Lubljanna, en þangað hef ég komið. þá fór ég heim til Sigga með honum og Kötlu til að panta Pítsu, heví góða, gekk þá heim og horfði á Fawlty Tower þátt sem skartar John Cleese meðal annars.



|

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Tvöþúsund og fimm, gym 

Þegar ég var frekar ungur þá lærði ég að hjóla. Daginn eftir að ég steig fyrst á hjól var ég kominn út á bílastæði brosandi út að eyrum á nýja DBS hjólinu mínu sem var ekki nýtt, komið á fjórða eiganda. Mamma og pabbi unnu bæði hjá ríkinu í heilbrigðisbransanum og voru nýlega búin að kaupa sér íbúð á góðum stað í 105. En hjólið gæti ekki hafa verið nýrra í mínum augum, ég var alsæll, sýnandi eldri krökkunum og jafnöldrum hve góður ég væri að hjóla. Ég kunni þetta allt, stilla hnakkinn, beygja fram hjá hindrunum, stíga taktfast á pedalana og strax farinn að prjóna (kannski ekki alveg en samt frekar kreisí á því, hjóla full hratt og hoppa á götuköntum). En það gleymdist eitt atriði, ég kunni ekki að bremsa, þ.e. að hreyfa pedalana í öfuga átt. Ég lærði á þessum þýðingamikla degi að ef maður kann ekki að bremsa og halda aftur af sér mun maður að lokum brenna sig illa á hlutunum og allur árangur getur orðið að engu ef maður dregur sig ekki í hlé og fer betur í kjölinn á málunum og stendur öruggur á grundvallaratriðum. Ég endaði á því að hjóla af bílastæðinu og út í runna. Bílastæðið var ofan á bílskýli hússins og var því frekar hátt fall af því þar sem það snéri niður í brekkuna á hólnum sem blokkin er ég bjó í var byggð. Runninn var það ungur og nýr (eins og margt annað í hverfinu mínu) að hann skaut mér ekki til baka á bílastæðið, heldur rétt náði runninn að grípa hjólið, en ég flaug niður á næstu hæð í aðliggjandi garð. Ég grét, nöglin á mér datt af, eða var það kannski þegar ég klemmdi mig? Ég man í hve miklu sjokki ég var, það hafði enginn verið að minnast á það að bremsa væri krúsjal hlutur í hjólreiðum, grimmur heimur. Ég fór þó að hjóla aftur nokkrum dögum síðar en ég hef aldrei verið maður í einhver extreme sport og get ekki kallast adrenalín fíkill. Ég er enn í dag frekar lofthræddur en það vandist nokkuð af mér þegar ég var að smíða sex hæða háan stillansa eitt sumarið. Ég var á þessu bílastæði um daginn og leit í garðinn fyrir neðan. Þetta var alls ekki jafn hátt fall og í minningunni en samt hefði ekki verið erfitt að hálsbrjóta sig ef maður hefði lent á réttan hátt. Þetta var tími hjálpardekkjanna og áhyggjulausra daga þar sem maður stofnaði leynifélög, lennti í illdeilum og stríðum við krakka í nærliggjandi blokkum og húsum, stundaði daglega einakrónu og boltaíþróttir, safnaði glerflöskum í Versló og keypti bland í poka fyrir, 45 kr., jafnvel 60 kr. sem voru enginn smá peningur í þá daga, allt upp í 30-40 súkkulaðikúlur. Ekki grunaði mig að dagurinn hjá mér á tuttugasta og öðru lífsári byði upp á eintóma setu yfir bókum, hreyfingu sem manni finnst maður verða að stunda, annars líði manni ekki jafnvel, hafa hemil á sér, jafnvel þegar mann langar ekki til þess, heimsóknir á spítala, ekki sem sjúklingur, eilíf kvennavesen, ábyrgð á sjálfum sér, stanslaus hlökkun til næstu helgar strax á laugardagskvöldi, fótbolti aðeins á sunnudögum, oftast þunnur, persónuvandamál sem maður neyðist til að taka á, og vera jákvæður gagnvart því að fara snemma í háttinn. Ég sakna þess að halda í rauðu höldin á hjólinu mínu og stýra fram í óvissuna án þess að vita hvernig ég hægi á mér.

Tvöþúsund og fimm -)
einn, tveir.......dimmalimm -)
/Ég breytti mínu nafni í Tim/ -)
ég dansa skans við glimm- (-
er mána og fallega lim- (-
ru(gl) má tvinna saman -)


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?