<$BlogRSDURL$>

föstudagur, október 29, 2004

Cheerios uppfærsla, betri sonan. 

Já ég vaknaði í gærmorgun, þetta var eins og hver annar dagur. Fara úr rúmminu á réttri hlið, dröslast upp á efri hæð og í sturtu. Ég var veikur og að sjálfsögðu kalt á fótunum. Svo klæddi ég mig í ný föt, nema gallabuxurnar eru frekar skítugar, keypti þær um daginn og er því að ganga þær til. Vinur minn sem vann í fataverslun sagði mér að það væri möst að ganga þær mikið til áður en maður setti þær í fyrsta skipti í þvott. Fór niður í eldhús því ég var svangur og ætlaði að fá mér cheerios, ab-mjólk, musli og ávexti í einni súpuskál.

Ekkert helvítis cheerios, bara einhverjir skíta hafrakoddar sem ég neitaði að borða í æsku, en mamma kom litla bróður mínum á bragðið, hann borðar þá alltaf á morgnanna og er því betri sonurinn sem stóð undir væntingum foreldra minna. ,,Mismunun'' æpi ég og frussa yfir borðið um leið, ég fæ eitt af þessum klassísku móðursýkisköstum (hysteric episode) sem ég hef verið að berjast við síðustu ár. Ég skil ab-mjólkina eftir á borðinu, fer úr töfflunum mínum og í sokka, ég er svo æstur að ég sé ekki að ég fer í krummasokk og mislita sokka, rauðan fótboltasokk og skræpóttann til pörunnar.

Ég kemst ekki inn á bókasafnið því að fólki sem gengur í mislita sokkum er ekki hleypt inn eftir klukkan 9:30 á morgnanna. Ég stend fyrir utan bókasafnið, það er varla orðið bjart ennþá, slydda í þokkabót. Ég sá þá einhverja stelpu í fjarlægð sem ég hélt að ég kannaðist við, fór að elta hana og ætlaði að ná tali af henni. Hún leit við og sá mig, pottþétt, en því hraðar sem ég labbaði því hraðar gekk hún. Í lokin var ég farinn að hlaupa og kalla ,,Bíddu aðeins, ég ætla bara aðeins að tala við þig”. Ég hleyp og hleyp, skil ekkert í þessu, það er eins og hún sé að forðast mig. Var þetta einhver gella sem ég hafði verið að reyna við niðri í bæ en hún hafi alls ekki verið að meika mig? ég verða að hætta að drekka svona mikið og fara í blackout. Í lokin stekkur hún inn í einhverja runna við gangstéttina af fullum krafti og ég missi sjónar af henni. Þá átta ég mig á því að ég er kominn lengst inn í hverfi og er langt frá skólanum. Ég geng því til nágranna míns sem býr í næsta nágrenni og banka upp á. Hann opnar og hellir upp á kaffi. ,, svakalega er mikið af bílum hérna, maður getur bara ekki gengið göturnar, hvað þá hlaupið”. Kunningi minn er sammála, enda eigum við hvorugir bíl.

Ahh,nú átta ég mig á því af hverju stelpan var að hlaupa svona undan mér. ,,ég var í jakka sem passaði ekki við sokkana, ég var í ósamstæðum sokkum, hún hefur pottþétt haldið mig einhvern klikkhaus ofan úr sveit" hugsa ég með mér.

,,maður verður að fara að finna sér kellingu svona til breytingar” segi ég við kunningja minn, hann heyrir ekki, nennir ekki að hlusta á kjaftæði.

Ég fordæmi fólk sem fordæmir annað fólk á þriðjudögum því þá hefur það bætt nögl í Naglfara miðvikudagsins.


|

þriðjudagur, október 19, 2004

iryerukA 

Ég á ekki til orð yfir veðrið sem er að bombast á landið. Ég sem ætlaði að fara til Akureyrar í dag og reyna að eyða kynsjúkdómum þar með dildo í einni og smokk í hinni, ekki ósvipað unga riddaranum sem reið um Ísland fyrir rúmum 1000 árum með sverð í einni og biblíu í hinni til að kristna Íslendinginn. Ég býst svona passlega við að fara ekki en maður veit aldrei. Löggan á Akureyri hefur beðið fólk um að vera ekki úti að tilefnis-/ásæðulausu.
Og helgin var bara fín, smá tjill og nokkuð partí.
Ég fór á bókasafnið um daginn. þar er bara ókeypis að leigja alla tónlistadiska á staðnum, ég tók 9 diska svona rétt til að byrja með en þeir munu fljótt verða fleiri.
Ég svo að sjálfsögðu að fara í vísindaferð á föstudaginn en þá verður farið til Hrafnistu en ég hef heyrt að þeir gefi mikið fyrir að hafa matinn afar góðan og girnilegann, (kemur þetta orð af girnd eða einfaldlega görn, manni er spurn) svipað og er almennt á öllum deildum Hrafnistu.


|

fimmtudagur, október 14, 2004

parti, partí,súnd, Grundó!!!!!!!! 

nú er ég búinn með heila skýrslu og ég mætti í nær alla tíma í dag.

Ég hef ákveðið að fá mér sundsprett, ég vona að Siggi T. vilji skila rauðu sundskýlunni minni sem ég gleymdi í bílnum hjá honum þegar við fórum í sundfýluferð þarna um daginn. Annars fer ég bara nakinn í sund, allavega sturturnar.

Þá er bjórkvöld á Gauknum, þar sem parti, partí verður, dúndurfréttir að spila á neðri hæðinni, hver veit nema maður kíki.

Þá verður farið til Grundarfjarðar í einhvern nýjan menntaskóla. Þá verður farið á heilsugæsluna á staðnum en starfsfólkið vildi endilega fá okkur í heimsókn. Parti, partí. Annars er reglulega skemmtileg helgi framundan.

|

Ég á mína eigin sokka 

Ég er ekkert að fara í felur með það, ég á aragrúa af bláum sokkum með hvítu merki á sem er eins og skjaldamerki og J er inni í einum hluta þess. Ég veit ekkert hvað þetta þýðir. Ætli ég hafi keypt of mikið af jólasokknum? Ég fór með tvær beiglur, ost, skinku og klípu af smjöri í skólann í dag. Það er ágætt en mun varla endast mér út daginn. Ég á líka berjate í boxinu mínu sem er í efstu hillunni inni í matarkompu.
Eins og sést hefur ekki verið mikið að gerast hjá mér síðustu daga. Ég hleyp á milli skólans og heimilis þar sem ég leggst jafnan niður til hvílu um leið og ég er kominn inn, sama hvaða tíma dags ég geng inn um dyrnar. milli þessa fer ég stundum í sund eða út að hlaupa.

Nú er best að drífa sig í tíma sem helgar sig varmafræðilögmálum sem tengjast læknavísindunum að einhverju marki!

|

mánudagur, október 11, 2004

List, trist, svo þyrst og kysst 

Ég vaknaði í morgun klukkan 7:30. Ég gekk á klósettið, fékk mér vatnssopa og lagðist aftur til legu, ég slökkti á báðum vekjaraklukkunum og lokaði augunum. Það var svo ferskt loft inni í herberginu hjá mér og vindurinn feykti haustlaufunum í hringi fyrir utan. Sum laufin festust í pollunum, hættu flugi sínu og drukknuðu hægt. Ég prumpaði undir sængina og lyfti henni upp, haustgolan sá um afganginn. Ég ákvað að skrópa í sex tímum í dag, vakna frekar ferskur um hádegisbil með skál af AB-mjólk, mu(u-ið með tveimur punktum yfir)slí og banana (maður opnar ekki banana og gefur síðan skít í hann; Siggi T.).
En í dag er mánudagur, mánudagur sem gefur kost á að fara í listgöngur því aðgangseyrir listasafna er með lægra móti í dag, frítt!
Ég læt efnaskipti erfðaefnis víkja fyrir meisturum íslenskrar listmálunar, hver veit nema ég klára Meistarann og Margarítuna eftir Búlgakof á bókasafninu þar sem ég get leigt urmul(lumru)skemmtilegra geisladiska í dag og á morgun.
Ég fór í fótbolta í gær í íþróttahúsi MS. Það var ágætt en ég var með blöðru á hægri litlutá og hlaupaskórnir sem ég keypti í vor gáfust upp. Skósólinn datt næstum allur af í heild sinni og komið er gat á báðar hliðar þar sem litla táin virðist hafa nuddast það mikið í efnið að það myndaðist semsagt bæði blaðra og gat. Ég fór líka í fótbolta á skólalóð Hlíðaskóla með Sigurði Tómasi (Hans Óla), malbikið var blautt, fótboltinn loftlaust, ég með harðsperrur og Siggi Fokked í hnénu. Við ákváðum fljótt að snúa okkur að sundi. Það var lokað þegar við komum, búið að breyta opnunartíma og enginn skrifaði í blöðin um það.


|

laugardagur, október 09, 2004

Og Björgólfur bauð mér upp á 14 bjóra 

Það er ekki rétt. þeir voru aðeins 10. En þetta sagði ég fólki á djamminu í gær eins og að drekka vatn. Þá fékk ég mér meira öl.
Þessi saga gerist öll í miðbæ Reykjavíkur eftir vísindaferð í Landsbankanum.....

Ég var kominn inn á Pravda, sem var í mínum huga málgagn kommúnista í Rússlandi á sínum tíma en virðist hafa breyst í bar með glerborðum og hvítum, formföstum veggjum (eru þeir það ekki oftast?). Ég fann enga tengingu þarna á milli, enda var ég svo fullur. Fóru allir að horfa á Idol sem var varpað á alla veggi með skjávörpum en ég horfði meira og meira ofan í glasið þar sem sjálfsmynd mín var orðin afar tíð.
Ég rankaði við mér í einhverjum einkennilegum samræðum við barinn seinna um kvöldið. Var ég að tala við unga snót sem ég þekkti, samt hafði ég aldrei talað almennilega við hana. Þetta endaði í rugli í sögum um ljóð sem voru samin við fimm ára aldur um bleika fíla (ég held ég hafi sagt henni að ég fengist við skriftir ljóða til að krydda aðeins upp á samtalið).

Var þetta bleikur fíll
eða bara venjulegur, eðlilegur grár fíll
í bleikum undirfötum?
Hann er ekkert eðlilegur fíll,
hefur vafalaust gengið í gegnum
mörg áföll í æsku.
Uppáhaldslitur fíla er nefnilega
kóngablár eða sægrænn.
Það skiptir máli hvort hann hafi
verið í þong eða blúndóttum nærbuksum.

þá dansaði ég en ég var orðinn svo valtur og laus við öll höft að ég skemmti ýmsum á svæðinu með mínum áhugaverðu sveiflum, munngeiflum og miskunnarlausu taktbrjótum sem ég tel vera afar merkilega. Ég fór á Kaffibarinn þar sem ég þekkti nokkur andlit, en var að bíða eftir góðkunningjum mínum Bóasi og Sigga T. sem dó næstum því um daginn (sjáið, engin tímasetning).

Heyrðu, svo ekkert kyssikyss
það er ekkert svona í kvöld.
Fyrirgefðu áttu sígó?
Nei ég reyki bara Camel
Þessi gella fær fimm klöpp:
Klapp, klapp, klapp, klapp, klapp
Hún var samt með einhvern æsing
við hurðina
Æ, hún er samt svo foxí á því.
(K-bar, last night)

Ég kláraði iðraanatómíu um daginn (enn engin “föst” tímasetning). Hef síðan þá gengið um götur bæjarins leitandi mér að einhverju skemmtilegu að gera. Það er afar gaman að fá að njóta haustveðursins sem hefur verið að gera allt vitlaust síðustu daga, hvort sem það er gott eða vont.




|

miðvikudagur, október 06, 2004

ég hef mig að......... 


|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?